Loksins loksins er litla prinsessan fædd og ég get þá sýnt það sem ég prjónaði í sængurgjöf.
Fyrst gerði ég peysu með áttablaðarósinni. Uppskriftin er bara frá mér og er peysan prjónuð úr Lanett.
Þessi peysa er alveg pínulítil og getur hún örugglega farið að nota hana fljótlega.
Ég gerði svo hjálmhúfu við og er hún líka prjónuð úr Lanett.
Litlan fékk líka teppi til að kúra með. Þetta er Bring it on barnateppi. Það er prjónað úr Navia Trio. Alveg yndislegt að prjóna úr því og teppið mjúkt og fínt.
Hérna eru svo öll herlegheitin saman.
Ég var búin að gera aðra peysu, drappaða og brúna, en fannst hún vera of strákaleg þannig að ég gerði aðra stelpupeysu. Það var líka eins gott því það kom jú lítil prinsessa. En teppið ákvað ég að hafa í lit sem passar báðum kynjum og vona að þetta eigi eftir að koma að góðum notum.